Ársreikningur Lánasjóðs sveitarfélaga 2022 49
Fjármálaeftirlitsins til að framfylgja ofangreindu hlutverki. Grant Thornton á Íslandi er innri endurskoðandi
Lánasjóðsins.
Stjórn hefur skipað endurskoðunarnefnd samanber 108. gr. laga nr. 3/2006 til að sinna eftirlit með vinnuferlum
reikningsskila, endurskoðunar, áhættustýringar og innra eftirlits.
Áhættustýring og áhættunefnd
Stjórn ber ábyrgð á áhættustefnu Lánasjóðsins og skilgreinir áhættuvilja. Stjórn Lánasjóðsins samþykkir reglur um
framkvæmd áhættustýringar, hefur eftirlit með því að reglunum sé framfylgt og tryggir að innri ferlar vegna
áhættustýringar séu yfirfarnir. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á áhættustýringu Lánasjóðsins gagnvart stjórninni.
Sem lánafyrirtæki stendur Lánasjóðurinn í rekstri sínum frammi fyrir ýmsum tegundum áhættu. Eitt af
meginverkefnum stjórnenda hans er að sjá til þess að áhætta sé metin, henni stýrt og haldið innan fyrirfram
skilgreindra marka. Þættir í skilvirkri áhættustjórnun eru greining helstu áhættuþátta, mæling áhættu, viðbrögð til að
takmarka áhættuna og reglubundið eftirlit. Markmið áhættustýringar Lánasjóðsins er að tryggja að sjóðurinn standi
undir öllum kringumstæðum af sér alla þá atburði sem hent geta í starfsumhverfi hans.
Það eru tvær grundvallareglur sem hafðar eru í heiðri í rekstri sjóðsins í þeim tilgangi að lágmarka áhættu í daglegum
rekstri hans: útlán eru almennt veitt með sama hætti og lántökur (pörun útlána) og lánsloforð eru ekki gefin nema
fjármögnun sé lokið. Lögð er sérstök áhersla á að fjármögnun Lánasjóðsins endurspeglist í útlánum hans og með
því að fara eftir þessum reglum í daglegum störfum eru líkur á lausafjárskorti auk annara áhættuþátta lágmarkaðar.
Ársfjórðungslega útbýr áhættustýring sjóðsins skýrslu til stjórnar og kynnir á stjórnarfundi, þar sem farið er yfir helstu
áhættuþætti og stöðu þeirra samanborið við áhættustefnu sjóðsins. Lánasjóðurinn fer árlega í gegnum innra matsferli
í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki til að meta eiginfjárþörf sjóðsins og styrkja tengsl áhættumats sjóðsins og
áhættustýringu. Innra-matsskýrslan (e. ICAAP) er kynnt og samþykkt af stjórn sjóðsins áður en hún er send til
Fjármálaeftirlits Seðlabankans.
Lánasjóðurinn ber samkvæmt 78. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 að starfrækja áhættunefnd, sem ber að
sinna ráðgjafa- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn er varðar mótun áhættustefnu og áhættuvilja. Sökum smæðar sjóðsins
var sótt um undanþágu frá starfræktu áhættunefndar í samræmi við 5. mgr. 78. gr. Slík undanþága var veitt af
Fjármálaeftirlitinu með bréfi dags. 23. desember 2015 og skilgreint að starfsskyldur áhættunefndar yrðu yfirfærðar á
stjórn Lánasjóðsins.
Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki skal áhættustýring fjármálafyrirtækisins fara fram í einingu sem
er óháð öðrum starfseiningum. Þá skal ráða yfirmann áhættustýringar sem skal búa við sjálfstæði sem stjórnandi og
hafa umsjón með og bera ábyrgð á þeirri einingu þar sem áhættustýring fjármálafyrirtækis fer fram. Í 7. mgr. 17. gr.
kemur fram að ef starfsemi fjármálafyrirtækis réttlæti ekki sérstakt stöðugildi yfirmanns áhættustýringar geti
Fjármálaeftirlit Seðlabankans heimilað að annar starfsmaður hafi umsjón með áhættustýringunni, enda sé gætt að
hagsmunaárekstrum. Hafa skal til hliðsjónar eðli og umfang starfsemi fjármálafyrirtækis. Með bréfi 14. desember
2020 heimilar Fjármálaeftirlit Seðlabankans framkvæmdastjóra, Óttari Guðjónssyni að hafa umsjón með
áhættustýringu sjóðsins, sbr. 7.mgr. 17.gr.
Ytri endurskoðun og reikningsskil
Í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og samþykktir Lánasjóðsins skal kjósa endurskoðunarfélag á
aðalfundi. Endurskoðunarfélag sjóðsins skal jafnan hafa aðgang að öllum gögnum og skjölum sjóðsins í samræmi
við lög um ársreikninga. Á aðalfundi sjóðsins þann 1. apríl 2022 var KPMG Ísland (KPMG) kosið endurskoðunarfélag
Lánasjóðsins til 5 ára og endurskoðandi er Hrafnhildur Helgadóttir. Sjóðurinn gerir uppgjör sín samkvæmt IFRS
alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og birtir þær upplýsingar sem krafist er í samræmi við þá staðla.
Gildi sjóðsins og siðareglur
Stjórn hefur sett starfsmönnum sjóðsins siðareglur. Þar segir að starfsmenn Lánasjóðsins eigi að gegna störfum
sínum af alúð og samviskusemi og gæta hagsmuna Lánasjóðsins í hvívetna. Þá eru starfsmenn sjóðsins í störfum
sínum bundnir af lögum, reglum og samþykktum Lánasjóðsins. Starfsmenn sjóðsins eru einnig meðvitaðir um þá
samfélagslegu ábyrgð sem sjóðurinn hefur að gegna og starfa í samræmi við það. Starfsmenn Lánasjóðsins hafa
ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku, og
að framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið
ráði för við stjórnun og rekstur Lánasjóðsins.