Árangur og óvissuþættir 2022, frh.
metin með forðastýringaráætlunum. Þær og eftirspurnarspár eru grundvöllur ákvarðana um uppbyggingu kerfa eða
aukna orkuöflun. Á árinu 2022 var unnin framtíðarsýn hitaveitu Veitna, byggð á eldri gagnaöflun misseranna á
undan. Hún leiðir í ljós að huga þarf vel að forðamálum í flestum veitum ásamt umtalsverðum viðbótum í orkuöflun
og niðurdælingu háhitasvæða. Í miklu kuldakasti undir lok árs 2022 og í upphafi 2023 kom til skerðinga á afhendingu
til stórnotenda hitaveitna, t.d. sundlauga. Öflug upplýsingagjöf til almennings og annarra hagsmunaaðila leiddi til
þess að aðgerðirnar nutu skilnings í samfélaginu. Varðandi háhita er niðurdráttur í samræmi við spár og markmið
viðhaldsborana eftir gufu gekk að mestu eftir. Gufuöflun til Hellisheiðarvirkjunar verður efld með tvöföldun gufuæðar
frá Hverahlíð sem tekin verður í notkun 2024. Kaldavatnsforði er góður og öll vatnssýni stóðust gæðakröfur.
Rauntímaeftirlit með gæðum neysluvatns í Reykjavík gefur góða raun. Úrkoma og viðhald á hreinsistöð fráveitu á
höfuðborgarsvæðinu leiddu til tíðara yfirfalls við dælu- og hreinsistöðvar. Mælingar á gæðum sjávar við útrásir
sumarið 2022 benda þó til lítillar sjávarmengunar vegna skólps.
Kolefnisspor samstæðunnar stækkaði á árinu 2022 og má það einkum rekja til hnökra í rekstri lofthreinsistöðvar við
Hellisheiðarvirkjun. Stórt skref til smækkunar kolefnissporsins verður stigið með stækkun lofthreinsistöðvar á
Hellisheiði árið 2025. Við Nesjavallavirkjun var rekstur tilraunastöðvar af sama toga áformaður á árinu 2022 en
frestaðist til fyrsta ársfjórðungs 2023. Þar verður koldíoxíð og brennisteinsvetni fangað úr jarðgufu og fargað með
steinrenningu. Brennisteinsvetni fór ekki yfir reglugerðarmörk á starfssvæði samstæðunnar á árinu 2022.
Loftslagsáhætta snertir alla þætti starfsemi OR en einkum veiturekstur. Á árinu var áfram unnið að því að fella þá
þekkingu sem aflað hefur verið með skýrslugerð Veitna inn í aðra áhættustýringu samstæðunnar en einnig
niðurstöður áhættugreiningar frá öðrum fyrirtækjum i samstæðunni. Áhættan snýr einkum að aðlögun að
sjávarborðshækkun, meiri úrkomuákefð og leysingum og óvissum langtímabreytingum á lofthita hér á landi með
samsvarandi breytingu á eftirspurn eftir vatni til húshitunar. Þá var hættan á aukinni tíðni eldingaveðurs tekin inn í
áhættufylki samstæðunnar. Unnið er í senn að mótvægisaðgerðum og aðgerðum til aðlögunar. Ein þeirra er að
viðskiptavinir verði meðvitaðri um notkun sína á orku og stýring bæti nýtingu. Snjallmælavæðing Veitna styður mjög
við hvort tveggja og á árinu hófust kerfisbundin mælaskipti sem eru á áætlun hvað varðar tíma, kostnað og gæði.
Orkuveita Reykjavíkur hóf útgáfu grænna skuldabréfa árið 2019 undir grænum skuldabréfaramma. Það varð til þess
að fleiri tilboð bárust í útgefin skuldabréf en áður. Árið 2021 gaf OR út nýjan ramma grænnar fjármögnunar, þar
sem fjármögnun er á öðru sniði en með útgáfu skuldabréfa. Með breytingunni eru fjármagnaðar grænar eignir
samstæðunnar en ekki tiltekin verkefni einstakra félaga innan hennar. Öll fjármögnun samstæðunnar á árinu 2022
féll undir nýja græna fjármögnunarrammann, þar með talin sjálfstæð skuldabréfaútgáfa Ljósleiðarans ehf. Á árinu
voru græn skuldabréf Ljósleiðarans tekin til skráningar á aðalmarkað Nasdaq Iceland.
Á árinu 2021 gaf OR út siðareglur fyrir birgja samstæðunnar. Þær byggjast á 10 stoðum Global Compact
samstarfsins á vegum Sameinuðu þjóðanna og tilgangur útgáfunnar er að ná betri tökum á sjálfbærni allrar
virðiskeðju samstæðunnar. Með því að samþykkja siðareglurnar með undirskrift gengst birginn undir kröfur um
virðingu fyrir mannréttindum, reglum vinnumarkaða, umhverfinu og að beita sér gegn spillingu. Samsvarandi kröfur
hafa verið í útboðsgögnum OR um árabil en með þessu eru slík viðmið sett í minni innkaupum en þeim sem fara í
formleg útboð. Í árslok 2022 hafði 121 innlendur og erlendur birgir staðfest að þeir hlíttu siðareglunum, auk þess
þurfa allir þeir sem taka þátt í útboðum samstæðunnar að staðfesta siðareglurnar.
Eigendur OR veittu á árinu heimild til stofnunar sérstaks hlutafélags um rekstur Carbfix. Verkefni Carbfix eru mjög
fjárfrek og teljast til áhættufjárfestinga og því er hafinn undirbúningur að afla Carbfix hf. hlutafjár frá ytri aðilum til að
styðja við frekari uppbyggingu á starfsemi Carbfix, fjármagna uppbyggingu Coda Terminal í Straumsvík og önnur
verkefni. Carbfix hlaut mikilvæga viðurkenningu á árinu þegar félagið hlaut styrk sem nemur um 16 milljörðum
íslenskra króna úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins til uppbyggingar á móttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda
Terminal í Straumsvík. Styrkurinn er háður því að Carbfix fjármagni uppbygginu verkefnisins að öðru leyti.
Aðsókn að Jarðhitasýningu ON í Hellisheiðarvirkjun sótti í eðlilegra horf á árinu 2022 eftir hrun í gestafjölda árin á
undan vegna takmarkana kórónuveirufaraldursins. Elliðaárstöð, nýr áfangastaður sem nýtir húsnæði
Rafstöðvarinnar við Elliðaár, er í örri uppbyggingu á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Ákveðið var að sameina þennan
rekstur í einni einingu og var Jarðhitasýningin því seld til móðurfélagsins á árinu. Jafnframt var ákveðið að leggja af
götuljósaþjónustu ON. Hún var auglýst til sölu á árinu 2022 og nýr aðili tekur við þjónustunni árið 2023. Ljósleiðarinn
brást við breyttum aðstæðum á fjarskiptamarkaði með margvíslegum aðgerðum á árinu 2022, þar á meðal leigu á
þráðum í svokölluðum NATO-streng, nýjum samningum við fjarskiptafélög og kaupum á stofnneti Sýnar. Kaupin á