
Viðauki 2: Ófjárhagsleg upplýsingagjöf
Samfélagið og starfsmannamál
HS Veitur hf. hefur sett sér stefnu um starfsmannamál þar sem markmiðið er að tryggja að vinnustaðurinn
einkennist af fagþekkingu, verkkunnáttu, þjónustulund, starfsgleði, heiðarleika og gagnkvæmri virðingu. Möguleikar
til að ná fram settum markmiðum byggjast fyrst og fremst á því að fyrirtækið hafi yfir að ráða hæfu, áhugasömu og
vel menntuðu starfsfólki, sem getur axlað ábyrgð og sýnt frumkvæði í starfi, brugðist við síbreytilegum þörfum og
geti þannig tekið virkan þátt í framþróun fyrirtækisins. Einnig að fyrirtækið leggi metnað sinn í að hlúa vel að sínu
starfsfólki til að viðhalda starfsánægju og góðum starfsanda. Samkvæmt niðurstöðum úr vinnustaðagreiningu er
mikil starfsánægja hjá starfsmönnum en þátttökuhlutfall í könnun á árinu 2022 var 90% og fékk fyrirtækið 7,8 stig
en vísitala íslenskra fyrirtækja er 7,3 stig. Félagið býður starfsmönnum upp á árleg starfsmannasamtöl þar sem er
farið yfir kröfur og væntingar beggja aðila.
Félagið styður við starfsþróun og símenntun starfsmanna sinna. Gefinn er kostur á að auka við sig þekkingu bæði
innan sem utan félagsins. Mikið er lagt upp úr því að fræða starfsmenn um öryggismál og fá allir starfsmenn
fræðslu við hæfi. Félagið miðar að því að auðvelda starfsmönnum að samræma fjölskyldulíf með vinnu. Styrkir eru
veittir til starfsfólks til þess að ýta undir heilsusamlegan lífstíl. Einnig er aðgangur að heilbrigðisstarfsfólki sem
starfsmenn geta nýtt sér. Þá er virkt starfsmannafélag sem stendur fyrir ýmsum uppákomum yfir árið. HS Veitur hf.
hefur einnig sett upp valfag í samstarfi við grunnskóla á Suðurnesjum þar sem nemendur í 8.-10. bekk geta setið
áfanga um rafmagn, vatn og almennt um starfsemi félagsins.
HS Veitur hf. hefur birt jafnréttisáætlun og jafnréttisstefnu fyrir árin 2022 – 2025. Áætlunin hefur verið samþykkt
af bæði stjórn og framkvæmdastjórn ásamt því að vera yfirfarin og samþykkt af Jafnréttisstofu. Jafnréttisáætlunin og
aðgerðaráætlunin er endurskoðuð þriðja hvert ár og er næsta endurskoðun 2025. Forstjóri og framkvæmdarstjórn
bera ábyrgð á að stefnunni sé fylgt og mannauðsstjóri ber ábyrgð á jafnréttismálum í daglegu starfi. Félagið notast
við starfsmannakannanir og starfsmannaviðtöl til þess að fylgjast með líðan starfsmanna sinna. Í jafnréttisáætluninni
er tekið fram að skýrir ferlar séu til staðar um tilkynningar og meðferð á málum sem koma upp. Félagið miðar að
því að fræða starfsfólk sitt og þannig koma í veg fyrir að neikvæð atvik komi upp. HS Veitur hf. fékk í lok árs 2021
jafnlaunavottun sem endurnýjuð var í lok árs 2022, þar sem launamunur mældist 0,6% körlum í vil sem er undir
þeim viðmiðum sem sett hafa verið. Hlutfall launa og hlunninda forstjóra miðað við miðgildi launa starfsfólks er
5:1 samkvæmt launagreiningu 2 og er undir þeim viðmiðum sem horft er til. Heildar starfsmannavelta 2022 var
9,5%. 37,5% veltunnar skýrist af starfslokum vegna aldurs,
25% vegna annarra starfa, 37,5% vegna náms eða
annarra ástæðna. Meðalstarfsaldur starfsmanna í lok árs 2022 var 14,7 ár og meðalaldur starfsmanna 52,9 ár. Þá
hafa HS veitur hf. mælt hlutfall karla og kvenna sem starfa hjá félaginu, en starfsmenn félagsins á árinu 2022 eru
80% karlar á móti 20% konum. Það skýrist af þeim fagstéttum sem fyrirtækið byggir starfsemi sína á, og innan
þeirra stétta eru karlmenn mikið fjölmennari.
HS Veitur hf. leggur mikla áherslu á öryggi og velferð starfsmanna sinna. Gefin hefur verið út öryggishandbók þar
sem farið er yfir með ítarlegum hætti hvernig skal starfa á öruggan hátt í margskonar aðstæðum. Í
öryggishandbókinni er stefna félagsins og er hún uppfærð reglulega, síðast í maí 2019. Félagið hefur eftirlit með
öryggi á vinnustaðnum og verkstöðum, og tilkynnir öll slys sem verða á vinnustað. Innan öryggishandbókar er farið
yfir hvernig öryggisfræðslu skal háttað. Félagið er með öryggisnefnd sem starfar innan fyrirtækisins sem tekur út
öryggisáhættur í starfseminni og tryggir fræðslu og þjálfun starfsmanna. Félagið hlúir vel að öryggisfræðslu
starfsmanna og er hún hluti af nýliðafræðslu. Öryggisvika var haldin á árinu en öryggisvikur eru haldnar annað
hvert ár. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að félagið heldur úti dagskrá og fræðslu um öryggismál í heila viku á
öllum starfsstöðvum og með þátttöku alls starfsfólks. Í ár var í fyrsta sinn boðið upp á fræðslu um „sálrænt öryggi
og áhrif þess á almennt öryggi“ og „öryggi í upplýsingatækni“. Öryggisvörður og öryggistrúnaðarmaður fylgjast
með að búnaður og öryggi á vinnustað sé í samræmi við lög en starfsleyfi félagsins byggir á því að öryggi sé í lagi.
Starfsmenn skulu tilkynna öll slys, næstum slys og óhöpp til öryggisvarðar og er það gert til þess að fyrirbyggja
alvarleg slys. Félagið birtir upplýsingar um fjarveru vegna slysa. Til þess að fylgjast með fjölda slysa á vinnustað og
verkstað notar félagið H-töluna. Talan segir til um slys miðað við heildarvinnustundir allra starfsmanna margfaldað
með staðlinum 200.000. H-talan fyrir árið 2018 var 1,108, 6,640 fyrir árið 2019, 1,073 fyrir árið 2020, 2,203 fyrirð
2021 og var 2,230 á árinu 2022
Ársreikningur HS Veitna hf. árið 2022 37 Fjárhæðir í þúsundum króna