
Skýrsla og yfirlýsing stjórnar og forstjóra
Árshlutareikningur HS Veitna hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2025 er gerður í samræmi við alþjóðlegan
reikningsskilastaðal IAS 34, árshlutareikningsskil eins og hann hefur verið samþykktur af Evrópusambandinu.
Samkvæmt yfirliti um heildarafkomu námu rekstrartekjur félagsins kr 5.553 milljónum og nam heildarhagnaður
kr. 836 milljónum. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins kr. 36.736 milljónum, bókfært eigið fé er
kr. 17.860 milljónir og er eiginfjárhlutfall félagsins 48,6%. Á tímabilinu voru hvorki keypt eigin bréf né
greiddur út arður. Eigin bréf að fjárhæð 500 milljónir króna voru keypt í júlí 2025.
Í lok tímabilsins voru hluthafar í félaginu 3 en þeir eru:
Reykjanesbær með 50,1% hlut, HSV Eignarhaldsfélag slhf. með 49,8% hlut og Suðurnesjabær með 0,1% hlut.
Jarðskjálftar og eldgos hafa verið áberandi á Reykjanesi undanfarin ár. Talið er að um langvarandi goshrinu
gæti verið að ræða og líkur á endurteknum jarðhræringum og eldgosum næstu árin. Náttúuhamfarir á
Reykjanesi hafa valdið skemmdum á dreifikerfum HS Veitna í Grindavík og eru þau að hluta til löskuð í
bænum eftir jarðsig, jarðgliðnun og hraunflæði með tilheyrandi kostnaði, tekjutapi og tjóni á eignum
fyrirtækisins. Félagið hefur þurft að ráðast í fjölmargar viðgerðir og framkvæmdir á veitukerfum í og við
Grindavík til þess að halda uppi þjónustu við viðskiptavini. Áhrifin af jarðhræringunum gætu síðar komið fram
í auknum viðhaldskostnaði og nýframkvæmdum en vegna aðstæðna í bænum hefur ekki verið unnt að meta
umfang skemmda í dreifikerfunum.
Orkuver HS Orku í Svartsengi sem sér HS Veitum fyrir heitu og köldu vatni á Suðurnesjum og rafmagni að
hluta er staðsett í grennd við þau svæði þar sem gosið hefur undanfarin ár. Vegna þessa er sá möguleiki fyrir
hendi að orku- og neysluvatnsafhending stöðvist til skemmri eða lengri tíma. HS Veitur hafa í samstarfi við
stjórnvöld, sveitarfélögin á Suðurnesjum og aðra hagaðila gripið til ýmissa aðgerða til að verja eignir og
minnka líkur á þjónusturofi, meðal annars með styrkingu rafdreifikerfisins og uppsetningu varavatnsbóls og
neyðarkyndistöðva. Í skoðun er til hvaða frekari mótvægisaðgerða unnt er að ráðast í til að auka áfallaþol
orku- og veitukerfanna á svæðinu enn frekar.
Vegna þeirra miklu óvissu sem til staðar er varðandi framtíð veitukerfa félagsins í Grindavík, hafa ekki verið
færðar neinar varúðarfærslur í árshlutauppgjörinu. Viðræður standa yfir við NTÍ varðandi uppgjör tjónabóta á
þeim eignum sem þegar hafa orðið fyrir skemmdum.
Í vor hóf Landsnet loks framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 og búið er að reisa 69 af 86 möstrum línunnar og
hefur leiðari verið strengdur á milli 50 þeirra. Um er að ræða mikilvæga innviðauppbyggingu til að bæta
afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og auka flutningsgetu raforkukerfisins milli höfuðborgarsvæðisins
og Suðurnesja. Í haust fór verkefnið hinsvegar í biðstöðu því Landsnet ákvað að stöðva framkvæmdirnar á
meðan beðið er niðurstöðu í dómsmálum sem tengjast verkefninu.
Neðansjávarlögnin sem flytur neysluvatn til Vestmannaeyja er enn löskuð eftir tjón sem varð á henni haustið
2023. Lögnin er í eigu Vestmannaeyjabæjar en rekin af HS Veitum. Áfram er áhætta fólgin í því að skemmdir
eru á lögninni og óljóst hversu lengi hún muni halda. Til staðar eru viðbragðsáætlanir til að lágmarka áhrif á
starfsemina í Vestmannaeyjum ef til þess kemur. Til að bregðast við ástandinu er Vestmannaeyjabær að vinna
að innkaupum á nýrri lögn sem gert er ráð fyrir að verði lögð árið 2026.
Landsnet lagði í sumar tvo nýja sæstrengi til Vestmanneyja. Unnið er að lagningu jarðstrengja og uppsetning
búnaðar vegna komu nýju rafstrengjanna. Áætlað er að strengirnir verði komnir í notkun um áramótin.
Raforkuöryggi í Vestmannaeyjum mun batna verulega við þetta.
3